Innlent

Vilja láta friðlýsa Ingólfsfjall

Malarnám í Ingólfsfjalli Sigurður segir Ingólfsfjall vera mörgum hjartfólgið.
Malarnám í Ingólfsfjalli Sigurður segir Ingólfsfjall vera mörgum hjartfólgið.

Náttúruvernd Sigurður Sveinsson, lögmaður á Selfossi, segir stofnun hollvinasamtaka Ingólfsfjalls vera í bígerð. Það er ljóst hvað markmiðið er og þetta verður ærin barátta, segir Sigurður og segir marga vilja stöðva malarnám í fjallinu. Það verður ekki aftur tekið sem þegar hefur verið gert, en ef það á að taka áttatíu metra af fjallsbrúninni verður það verra en nokkurn tímann.

Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands kærðu ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí, þess efnis að framkvæmdaleyfi yrði veitt til efnistöku úr fjallinu. Framkvæmdir sem þýða lækkun eða breytingu á fjallsbrún í sunnanverðu fjallinu voru því tímabundið stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðar­nefnd skipulags- og byggingamála.

Sigurður segir marga vera ósátta vegna umhverfisspjallanna og breytinga á útliti fjallsins. Auðvitað er eyðileggingin á fjallinu það sem bæjarbúum blöskrar helst. Sigurður segir einnig marga hafa bent á aðra staði á svæðinu þar sem hægt væri að sækja möl.

Samtökin eru ennþá á frumstigi, en Sigurður segist finna mikinn meðbyr meðal Sunnlendinga og að samtökin verði án efa öflugur málsvari friðlýsingar á Ingólfsfjalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×