Erlent

Villepin tilbúinn að gera breytingar á vinnulöggjöf

Lögregla sprautar á mótmælendur í París í gær.
Lögregla sprautar á mótmælendur í París í gær. MYND/AP

Franska lögreglan handtók í gær yfir sex hundruð manns vegna mótmæla við fyrirhugaða vinnulöggjöf í landinu. Forsætisráðherrann segist nú, í fyrsta sinn, tilbúinn að gera breytingar á lögunum.

Lögreglan þurfti að beita táragasi og öflugum vatnsbyssum til að dreifa úr mannfjöldanum sem kastaði flöskum og bensínsprensjum í hana. Embættismenn segja að ófriðarseggirnir hafi fæstir verið að mótmæla lögunum heldur vekja athygli á eigin kjörum.

Dagblaðið Le Monde segir allt að þrjá milljónir manna hafi mótmælt vítt og breitt um landið, þar af um átta hundruð þúsund í höfuðborginni París og efndu verkalýðsfélög til allsherjarverkfalls. Samgöngur röskuðust verulega bæði innanlands sem og í alþjóðaflugi. Mestu óeirðirnar eru yfirstaðnar og segist lögreglan ekki eiga von á frekari mótmælum í dag en hún sé þó í viðbragðsstöðu.

Mótmælendur kröfðust þess að hætt yrði alfarið við nýju vinnulöggjöfina, en hún gerir atvinnurekendum kleyft að segja ungmennum undir 26 ára upp starfi skýringarlaust, á meðan þau eru á tveggja ára reynslutíma. Verkalýðsfélög hafa neitað að koma á fund Dominique de Villepin, forsætisráðherra landsins, til að ræða málin, en hann segist nú tilbúinn til að semja um lengd reynslutímans og skilyrði uppsagna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×