Erlent

Tælendingar kjósa sér þing

Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Tælands, á kjörstað í morgun ásamt börnum sínum.
Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Tælands, á kjörstað í morgun ásamt börnum sínum. MYND/AP

Tælendingar gengu að kjörborðinu í morgun og kusu sér þing. Forsætisráðherra landsins boðaði óvænt til kosninga fyrir nokkrum vikum og vildi með þeim reyna að þagga niður í andstæðingum sínum sem hafa krafist afsagnar hans.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan átta að staðartíma eða klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Þeim var lokað sjö klukkustundum síðar. Það var Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra, sem boðaði óvænt til kosninganna í síðsasta mánuði eftir stöðug mótmæli á götum höfuðborgarinnar, Bagkok. Þess var krafist að forsætisráðherrann segði af sér sökum spillingar og valdníðslu.

Andstaðan við forsætisráðherrann jókst í janúar þegar fjölskylda hans tilkynnti að hún hefði selt ráðandi hluti í símafyrirtæki til ríkisfyrirtækis í Singapore fyrir jafnvirði rúmlega 135 milljarða íslenskra króna án þess að greiða skatt af söluandvirðinu. Shinawatra er einnig sagður hafa tekið illa á uppreisn múslima í suður hluta landsins.

Barist er um 500 þingsæti í kosningum og hafa 753 frambjóðendur 18 flokka fengið að bjóða sig fram en rúmlega 250 frambjóðendur fengu það ekki. Í þingkosningum í fyrra vann flokkur forsætisráðherrans 377 þingsæti.

Forsætisráðherrann hefur heitið því að víkja ef flokkur hans fái ekki að lámarki helming þingsæta og má búast við að sú verði raunin miðað við hve hann nýtur mikils stuðnings á landsbyggðinni.

Þrír helstu stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi buðu ekki fram og hvöttu kjósendur til að skila auðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×