Erlent

Óttast ókyrrð í íslensku fjármálalífi

Breskir fjárfestar óttast að ókyrrð í íslensku fjármálalífi leiði til þess að íslenskir fjárfestar selji eigur sínar í Bretlandi. Hlutabréf í félögum þar sem íslendingar hafa fjárfest hafa lækkað í verði vegna þessa ótta á umliðnum dögum. Frá þessu er ítarlega greint í blaðinu Sunday Times í dag.

Blaðagreinin endurspeglar þá staðreynd að íslenskt fjármálalíf getur haft víðtæk áhrif í bresku atvinnulífi, svo mikil ítök hafa íslenskir fjárfestar orðið í Bretlandi. Í Sunday Times er bent á að 65 þúsund breskir starfsmenn séu vinnandi hjá þeim fyrirætkjum sem Íslendingar hafi verið að fjárfesta í. Hollustan í íslensku hagkerfi geti því haft veruleg áhrif í Bretlandi ef undan fjarar.

Blaðamaður Sunday Times rifjar upp gagnrýnisraddir um yfirhitun á Íslandi og grandvaraleysi í bankakerfinu sem gagnrýnt hefur veirð í matsskýrslum. Bankarnir hafi farið geyst og standi illa að vígi nú þegar íslensku bankarnir eigi ekki eins greiðan aðgang að ódýru lánsfé til að endurfjármagna skammtímaskuldir sínar. Sigurður Einarsson, forstjóri KB banka blæs á þessa gagnrýni í Times og telur að hún sé yfirkeyrð. Ljóst er þó að breskir fjárfestar hafa áhyggjur af því að kreppuskot á Íslandi kunni að leiða til þess að íslenskir fjárfestar þurfi að selja eigur sínar í stjórum stíl. Þetta endurspeglast í lækkun á gengi hlutabréfa í íslensku fyrirtækjunum á Bretlandsmarkaði á umliðnum dögum.

Sunday Times bendir á að hlutir í Wollworths og French Connection hafi lækkað í verði en Baugur hefur náð 10 og 13 prósenta hlutdeild í þessum versluanrkeðjum. Að baki liggur ótti við að Íslendingar selji og að sú sala hafi keðjuverkandi áhrif. Eins er bent á að FL Group eigi nú 16,5 prósenta hlut í flugfélaginu Easy Jet sem hafi stórlækkað í verði á mörkuðum vegna sama ótta. Nemur lækkun á markaðsvirði félagsins hundruð milljóna króna á síðustu dögum.

Nálgast má grein Sunday Times hér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×