Innlent

Gengur vonandi upp hjá Mjólku

Skiptar skoðanir eru um það hvort hægt sé að reka mjólkursamlag utan greiðslumarkskerfis landbúnaðarins eins og stefnt er að með mjólkursamlaginu Mjólku. Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, telur að um athyglisverða tilraun sé að ræða til að fá úr því skorið hvort þetta sé hægt. "Auðvitað hljóta allir, sérstaklega neytendur og skattgreiðendur, að binda vonir við að tilraunin gangi upp en það getur enginn svarað því nema þeir sem til þekkja," segir hann. "Hagfræðingar hafa gagnrýnt harkalega margt í rekstri landbúnaðarkerfisins, bæði innflutningshöftin og verndina sem í þeim felst og kostnaðinn sem lagður er á skattgreiðendur gegnum niðurgreiðslur og aðra styrki. Ef Mjólka getur starfað án styrkja þá verður það athyglisverð vísbending um að hægt sé að stunda landbúnað á Íslandi án þeirrar verndar sem landbúnaðurinn hefur núna. En þetta kerfi hjálpar Mjólku að því leyti að það er hátt verð á sumum tegundum osta vegna innflutningsverndar," segir Gylfi. Erna Bjarnadóttir, forstöðumaður félagssviðs Bændasamtakanna, telur að það sé ekki fjárhagslega arðbært að reka mjólkursamlag utan greiðslumarkskerfis landbúnaðarins. "Í fljótu bragði sé ég ekki grundvöll fyrir því," segir hún. "Þó að greiðslumark sem er fært á milli búa í dag sé hátt í verði þá þarf beingreiðslur til að standa undir því. Mér finnst mjög vandséð að það geti gengið upp fjárhagslega að starfrækja bú með 52,9 prósentum af því sem aðrir framleiðendur fá fyrir sína mjólk," segir hún. Ólafur Magnússon, einn af forsprökkum Mjólku, segir að stofnfé Mjólku sé 40 milljónir króna. Gert sé ráð fyrir umtalsverðu rekstrartapi fyrstu misserin meðan verið er að byggja upp fyrirtækið og greiða stofnkostnaðinn en reksturinn verði jákvæður á sjötta til sjöunda ársfjórðungi frá stofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×