Erlent

Spilling af óþekktri stærðargráðu

Uppbyggingarstarfið í Írak gæti orðið mesta spillingarhneyksli sögunnar að mati samtakanna Transparency International. 24.000 milljarðar króna glatast á hverju ári um allan heim vegna spillingar og mútugreiðslna. Transparency International eru óháð samtök sem rannsaka og berjast gegn spillingu um allan heim. Ársskýrsla samtakanna kom út í gær og kennir þar ýmissa grasa. Spilling og mútugreiðslur eru landlæg í flestum löndum heims og áætla samtökin að 24.000 milljarðar króna renni í slíka hít á hverju ári. Verst er ástandið í iðnaðar- og byggingargeiranum, mun verra en í vopna- og olíugeiranum. Af þessu leiðir að spilling er meira vandamál í fátækum löndum en ríkum þar sem svo stór hluti þjóðartekna fer í uppbyggingu á innviðum samfélagsins. Transparency International sér sérstaka ástæðu til að vara við ástandinu í Írak eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli fyrir tveimur árum. Er kveðið svo fast að orði að verði ekki gripið til aðgerða sé stærsta spillingarhneyksli sögunnar í uppsiglingu. Afleiðingarnar þess eru mun hægari og kostnaðarsamari uppbygging landsins. Spilling var hluti af írösku þjóðlífi á tímum Saddams en ástandið hefur lítið batnað eftir hernmámið að mati Transparency International. Bandarísk stjórnvöld eru sérstaklega gagnrýnd fyrir að veita fáum útvöldum fyrirtækjum leynilega verktakasamninga án útboðs, eins og til dæmis Halliburton. "Í uppbyggingarstarfinu hafa bandarísk stjórnvöld verið slæm fyrirmynd um hvernig á að uppræta spillingu," segir í skýrslunni. Samtökin kalla eftir tafarlausum aðgerðum frá írösku ríkisstjórninni, hernámsliðinu og erlendum lánardrottnum. Að mati forsvarsmanna þeirra ættu erlendir verktakar að vera bundnir af lögum sem banna spillingu. Ennfremur þyrfti meðferð olíutekna Íraka að vera mun gagnsærri. "Róttækar aðgerðir gegn spillingu ættu í raun að hafa hafist áður en uppbyggingarstarfið byrjar fyrir alvöru," segir í skýrslu Transparency International.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×