Innlent

Sat einn eftir í draugabæ

"Ég er mjög hræddur," sagði Aron Pálmi Ágústsson þar sem hann var einn eftir á heimili sínu í Baumont í Texas í gærmorgun, en flestir íbúar voru þegar flúnir vegna fellibylsins Ritu sem þá var yfirvofandi. Aron hafði ekki fengið leyfi til brottfarar fyrr en hún hafði verið fyrirskipuð af yfirvöldum, en hann situr enn í stofufangelsi. "Þetta er eins og draugabær," sagði hann og kvað alla vegi teppta af fólki á flótta. "Já, það eru sex milljón manns að flýja í einu." Aron ætlaði í fyrstu að halda af stað upp á von og óvon, en starfsmenn íslenska sendiráðsins höfðu milligöngu um að hann fengi rútufar til Austin þar sem til stóð að hann hitti móður sína. Bjarni Tryggvason geimfari hafði ætlað til Houston í gær, en hætt við vegna Ritu. "Það var verið að flytja á brott alla kanadísku geimfarana hjá NASA vegna fellibylsins og því til lítils að ég færi að fara þarna niður eftir," sagði hann óhultur á skrifstofu sinni. Hann sagðist þó vita til þess að algjört umferðaröngþveiti hafi myndast á leiðinni út úr Houston. "Ég heyrði í vini mínum sem hafði þá verið í sex klukkutíma að komast um 30 kílómetra á bíl sínum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×