Lífið

Skáru trúlega úr mér skáldæðina

Á föstudagskvöldið frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur Híbyli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson. Leikritið er gert eftir vesturfarasögu Böðvars, "Híbýli vindanna". Böðvar á líka afmæli í dag. Hann er 66 ára. Af þessu hringdum við í skáldið þar sem hann býr í Danmörku. Við spurðum hann fyrst hvernig hugmyndin að Híbýlum vindanna hefði kviknað. "Hún kviknaði nú eiginlega hægt og hægt. Ég kenndi einu sinni á sumarnámskeiði í Victoria í Kanada. Þar er legat, myndað af gjöf Richards Beck til þess að styrkja sambandið við Ísland. Vinkona mín Kirsten Wolf, prófessor við Manitoba-háskóla, bauð mér að koma til sín og ég gerði það. Þar hitti ég gamla Vestur-Íslendinga, fólk af 3. og 4. kynslóð en sumt talaði ennþá íslensku og það gamla íslensku, sem ekki var lengur til á Íslandi. Nú svo kom það líka til að langafi minn fór á sínum tíma til Ameríku og frá honum eru til bréf til afa míns og svo frá afkomendum hans til pabba. Ég fór að lesa þessi bréf og þá má segja að hugmyndin hafi kviknað. Það er reyndar sérkennileg reynsla að lesa bréf til annarra, dálítið eins og að liggja á hleri. En það er skemmtilegt og ég stend í mikilli þakkarskuld við þessa bréfritara." Böðvar komst ekki til þess að vera viðstaddur frumsýninguna en kemur í næsta mánuði. Við spurðum hann hvað hann hefði fyrir stafni. "Ja, ég keppist nú við að ná heilsu. Safna mér saman. En svo er ég að sýsla við þetta sama. Annars er helsta áhyggja mín þessa dagana að fá útgefanda. Íslenskir útgefendur segja að ég skrifi ekki um rétt fólk. Svo er vitaskuld ekkert um morð eða samfarir í mínum bókum. Útgefendur trúa á morð og samfarir." Umsjónarmaður tímamóta minnist fyrstu ljóðabókar Böðvars, "Burtreið Alexanders" með mikilli aðdáun og telur að hún hafi ekki verið metin að verðleikum. Ertu að yrkja eitthvað Böðvar? "Æi, nei ég get ekki sagt það. Þeir tóku nú eitthvað af æðum úr löppunum á mér og notuðu annars staðar. Ætli ein þeirra hafi ekki verið skáldæðin." Lauk svo okkar tali. Lesendum til huggunar skal þess getið að æðarnar úr fótum Böðvars voru notaðar til viðgerða á hjartaæðum. Kannske ekkert verra að hafa skáldæðina þar!





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.