Innlent

Gjöfin hálfgerður bjarnargreiði

"Þetta er orðinn hálfgerður bjarnargreiði," segir Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Avion Group, en hann er einn þeirra sem gaf Arngrími Jóhannssyni flugstjóra hlut í DC-3 flugvél í afmælisgjöf. Flugvélin, sem ber nafn Arngríms, bíður nú hreyfilbiluð í Namibíu eftir því að varahlutir og viðgerð fáist svo hún geti lagt í hann til Írlands þar sem áætlað er að Arngrímur taki við síðbúinni afmælisgjöfinni og fljúgi henni til Íslands. Vélin er orðin 63 ára svo ekki er vandalaust við að eiga þegar eitthvað á bjátar. Að sögn Hafþórs er vélin að komast í lag en það veldur einnig töfum á ferðum hennar að þeir sem koma áttu henni til Írlands gátu ekki beðið eftir viðgerðum á Arngrími, sem nefndur hefur verið svo, og er verið að vinna að því að fá þá til að ljúka verkinu. Á Írlandi verður Arngrímur innréttaður en rýma þurfti vélina að svo hún bæri auka tanka sem hún þarf á að halda á langferðinni. Arngrímur flýgur svo væntanlega nafna sínum hingað til lands á haustdögum segir Hafþór og telur best að nefna enga dagsetningu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×