Innlent

NATO-fé renni til Pakistan

Ögmundur Jónasson þingmaður VG leggur til að 87 milljónir króna af framlagi til NATO renni til bágstaddra í Pakistan.
Ögmundur Jónasson þingmaður VG leggur til að 87 milljónir króna af framlagi til NATO renni til bágstaddra í Pakistan.

Ögmundur Jónasson, Vinstri grænum, gerði afleiðingar jarðskjálftanna í norðurhluta Pakistan í síðasta mánuði að umtalsefni á alþingi í gær. Fréttir bærust þaðan af sjúkdómum, harðnandi vetrarveðráttu og vaxandi neyð heimilislausra og slasaðra. Hann gat þess að Rauði krossinn hefði safnað 46 milljónum króna. Ríkið hefði látið átján milljónir króna af hendi rakna.

"Og ég vek athygli á því að Íslendingar ætla að láta 87 milljónir króna til þess að styðja hlut NATO til Íraks og Afganistans. Nær væri að snúa þessari tölu við og láta milljónirnar 87 ganga til fórnarlambanna í Pakistan."

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði í umræðunni að alltaf mætti deila um upphæðir og mælikvarða á framlög.

"Það vantar spelkur og það vantar verkjalyf. Við hljótum að geta gert betur," sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni.

Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, sagði að ríkisstjórnin hefði brugðist fljótt og vel við.

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, sagði tæplega nítján milljóna króna framlag til skammar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×