Innlent

Metaðsókn að Kvennaathvarfinu

Á þriðja hundrað kvenna leitaði á náðir Kvennaathvarfsins á síðasta ári og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Í langflestum tilfellum eru það makar sem beita ofbeldinu en dæmi eru um að mæður þurfi að flýja ofbeldi af hendi sona sinna. Aukning á komum í Kvennaathvarfið er ekki endilega sögð stafa af auknu ofbeldi gagnvart konum og börnum heldur mikilli umræðu um ofbeldi og skelfilegar afleiðingar þess. Konur virðast upplýstari. Þær nýta sér einnig í auknum mæli rétt sinn en um 12% kvennanna sögðust hafa kært ofbeldismanninn. Hlutfallið var einungis 7%árið 2003. Í ársskýrslu Samtaka um Kvennaathvarf er reynt er eftir megni að taka saman upplýsingar um það hvert för kvenna er heitið eftir að dvöl í Kvennaathvarfinu sleppir. Á síðasta ári fór þriðjungur þeirra aftur heim án þess að aðstæður hefðu breyst að ráði. Heim til eiginmanna eða sambýlismanna sem eru gerendur í langflestum tilfellanna. Guðrún Elín Jónsdóttir, formaður Samtaka um Kvennaathvarf, segir 42% gerenda vera eigimenn, í kringum 38% sambýlismenn eða kærastar og svo eru aðrir, þ.á m. synir sem leggja hendur á mæður sínar. Ekki er þó hægt að alhæfa að þar sé eingöngu um ræða drengi sem orðið hafa vitni að heimilisofbeldi feðra sinna að sögn Guðrúnar.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×