Innlent

Fyrstu húsin í fimmtán ár

Verktakafyrirtækið Sniðill í Mývatnssveit áformar að reisa tvö parhús með fjórum íbúðum í Reykjahlíðaþorpi á næstu mánuðum en það eru fyrstu húsin sem byggð eru í þorpinu í hálfan annan áratug. Byrjað er á jarðvinnu við fyrra parhúsið og eru báðar íbúðirnar seldar. Ingólfur Jónasson, framkvæmdastjóri Sniðils, segir fasteignaviðskipi lífleg í Mývatnssveit um þessar mundir, þrátt fyrir hrakspár og dökkt útlit í atvinnumálum Mývetninga í kjölfar lokunar Kísiliðjunnar í nóvember síðastliðnum. "Svo virðist sem fólk vilji búa hérna og það hefur enginn fólksflótti brostið á enn sem komið er," segir Ingólfur. Alls starfa 14 manns hjá Sniðli og vinna þeir við margvísleg verkefni, auk húsbygginga. "Þessa dagana eru starfsmenn frá okkur að vinna við uppsetningu á leikmynd vegna íslensk-amerísku spennumyndarinnar Last Winter sem að stórum hluta verður tekin upp við Mývatn," segir Ingólfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×