Innlent

Innflytjendum mismunað eftir stöðu

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur segir Íslendinga gera mismunandi kröfur til íslenskukunnáttu innflytjenda eftir menntun og stöðu þeirra í samfélaginu. Hún veltir því fyrir sér hvort sú ofuráhersla sem lögð er á íslenskuna, sé ekki enn einn þröskuldurinn í vegi þess að innflytjendur verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu og í raun hluti af stéttskiptingu þess. Þessa vangaveltur Guðrúnar komu fram á málþingi um reynslu innflytjenda á Íslandi sem haldið var í húsakynnum Reykjavíkurakademíunnar í gær. Guðrún sem sjálf bjó víða í Mið-Austurlöndum um tíu ára skeið spyr hvort krafan um íslenskukunnáttu sé ekki í raun leið íslenska samfélagsins til að hafa stjórn á innflytjendum. "Mér finnst þetta viðhorf til dæmis endurspeglast í því að íslensk stjórnvöld leggja enga sérstaka áherslu á að gera innflytjendum kleift að læra málið en krefjast þess samt að þeir kunni það", segir hún. Og hún fullyrðir að samfélagið geri mjög mismunandi kröfur til íslenskukunnáttu innflytjenda eftir stétt og stöðu. "Ég þekki hámenntaða útlendinga sem eru í góðum stöðum hér og verð ekki vör við að þess sé krafist að þeir tali íslensku. Svo hef ég unnið á sjúkrahúsi með mörgum innflytjendum og þar var sífellt verið að gera athugasemdir við að þeir töluðu ekki íslensku. Ég leyfi mér því að efast um að þessi áhersla á íslenskukunnáttuna sé sett fram til að fólkinu líði betur, heldur einfaldlega til að hafa betri stjórn á því". Guðrún bendir líka á að yfirleitt sé ekki nóg að innflytjendur tali íslensku heldur þurfi þeir helst að tala fullkomna íslensku til að mark sé tekið á þeim. "Samt vitum við að fyrsta kynslóð innflytjenda mun aldrei geta talað fullkomna íslensku en börnin þeirra munu gera það". Og hún spyr hvort ekki sé kominn tími til að horfa frekar á hæfileika þess fólks sem hingað kemur í stað þess að einblína á þá hluti sem það getur ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×