Innlent

Beðið verði fyrir Aroni Pálma

MYND/Rohn Weesler
Biskupsstofa hefur sent öllum prestum landsins beiðni um að mál Arons Pálma Ágústssonar verði gert að sameiginlegu bænarefni við guðþjónustu í kirkjum landsins á morgun eða við aðrar helgistundir í kirkjunum næstu daga þar sem beðið verði fyrir velferð hans og skjótri heimkomu. Er þetta gert að ósk RJF-hópsins, stuðningshóps Arons Pálma. Aron Pálmi hefur mátt þola refsivist í Texas undanfarin 8 ár eða frá 13 ára aldri og á enn eftir að afplána tvö ár af þeim dómi sem hann hlaut 1997 fyrir afdrifaríka barnslega yfirsjón, eins og það er orðað í tilkynningu frá stuðningshópnum. „Ætlun hópsins er í framhaldinu að skrifa ríkisstjóranum og fangelsisyfirvöldum í Texas bónarbréf á mjúkum nótum um að Aron Pálmi fái að koma heim til Íslands sem fyrst og nota þá frásögn af þessu sameiginlega bænarefni fyrir velferð hans og framtíð allri í öllum kirkjum landsins sem burðarefni í því erindi og sem gott dæmi um þá áherslu sem íslenska þjóðin leggur á að þessari sorgarsögu linni og þá umhyggju sem hér er borin fyrir öllum landsins börnum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×