Innlent

Gefur falska mynd

Verðbólgumælingin í landinu gefur falska mynd af hinni raunverulegu verðbólgu. Verðbólgan er í dag 4,5 prósent og þar með yfir vikmörkum Seðlabankans en í raun og veru er hún innan við 2,5 prósent. Þetta er skoðun Guðmundar Ólafssonar hagfræðings. Innan neysluvöruverðsvísitölu er reiknaður liður sem heitir reiknuð leiga á eigin húsnæði. Starfsmenn Hagstofunnar reikna út leigu í eigin húsnæði og tilfæra sem kostnað. Guðmundur segist telja óeðlilegt að gera þetta nema reikna tekjurnar á móti. "Ef maður borgar leigu í eigin húsnæði þá hlýtur maður að þurfa að reikna hana sem tekjur líka, ekki bara gjöld, þannig að þetta ætti að jafnast út. Þessi liður vegur upp undir típrósent í vísitölunni, að mig minnir, og hann gerir það að verkum að verðbólgan er yfir 4 prósentum. Ef hann væri það ekki þá væri verðbólgan innan við 2,5 prósent, að mér sýnist. Þessi eini reikningsliður keyrir reiknaða verðbólgu upp og hún verður mun hærri en ella," segir hann. "Ég er algjörlega ósammála því að þetta sé gert því að með þessu keyra starfsmenn Hagstofunnar upp verðbólguna. Öll lán í landinu hækka og bankarnir taka til sín gengishagnaðinn. Skuldirnar hækka en innlán bankanna eru í fæstum tilvikum vísitölutryggð." Neysluverðsvísitalan mælir meðaltalsverðgildi fjárhagslegra skuldbindinga. Fasteignaverð hefur snarhækkað upp á síðkastið og fjölskyldurnar í landinu hafa skuldsett sig meira en nokkru sinni áður. Um leið hefur hættan á fjárhagslegum erfiðleikum einstaklinganna aukist verulega. Guðmundur telur hættuna meiri og sterkari en áður og telur framhaldið ráðast af því hvort gengi krónunnar fer niður og húsnæðisverð lækki á næstunni eða hvort stöðugleiki ríki í þessum efnahagsmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×