Innlent

Bæði undrandi og glaður

Sjón átti ekki svefnsama nótt en varð bæði undrandi og glaður þegar hringt var í hann í morgun og honum tilkynnt að bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs féllu honum í skaut fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur. Sjón var ákaft fagnað þegar hann kom í útgáfuna Bjart í dag til að halda upp á einn mesta heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast. Skugga-Baldur er rómantísk skáldsaga sem gerist á Íslandi um miðja 19. öld. Bókin hefur stekan, siðferðilegan boðskap og er fallega skrifuð en hún fjallar um stúlku með Downs-heilkenni og hvernig hún tengist lífi og örlögum annarra aðalpersóna. Sjón segist hafa sofið lítið í nótt þar sem hann hafi verið að hugsa um verðlaunin. Síminn hafi hringt klukkan níu í morgun og það hafi verið Soffía Auður Birgisdóttir, annar fulltrúa Íslendinga í dómnefndinni, sem hafi tilkynnt honum að hann hefði unnið verðlaunin. Sjón segist ekki geta sagt annað en að hann hafi verið undrandi og glaður við tíðindin. Spurður hvort hann viti af hverju bókin hans hafi orðið fyrir valinu segist Sjón ekki hafa hugmynd um hvað hafi heillað dómnefndina. Hann hafi þó þóst frá upphafi eiga möguleika á verðalununum því honum þyki bókin afskaplega vel heppnuð. Það hafi eitthvað að segja að annars vegar gerist bókin um miðja 19 .öld og hins vegar sé hún sögð með frekar nýstárlegum aðferðum. Það virðist hafa heillað fólk ásamt því að í innsta kjarna bókarinnar sé mjög sterk siðferðisleg spurning sem skipti fólk máli í dag. Bókin seldist í á annað þúsund eintökum þegar hún kom út hér á landi árið 2003. Hún þykir að mörgu leyti aðgengilegri en fyrri bækur Sjón. Snæbjörn Arngrímsson, útgefandi hjá Bjarti, segir Sjón aldrei hafa verið stóran söluhöfund en með þessari bók hafi hann í fyrsta skipti fengið almenna athygli. Hann hafi frekar verið á kantinum sem tilraunahöfundur en þetta sé fyrsta bókin sem sé aðgengileg fyrir almenning. Sjón er sestur við að skrifa næstu bók og hefur þegar varið töluverðum tíma í rannsóknarvinnu fyrir hana. Hann vill ekki gefa upp um hvað hún fjallar en hún á að koma út á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×