Lífið

Alltaf legið eitthvað á hjarta

"Núna ætla ég að snúa mér að ritstörfum mínum," segir Gerður Kristný Guðjónsdóttir aðspurð um hvað hún muni aðhafast nú þegar hún hefur hætt störfum sem ritstjóri Mannlífs eftir sex ára setu. "Fyrirtækið, Fróði, sem ég hætti hjá þegar ég fór í barneignarleyfið hefur breyst ansi mikið, það er flutt í annað hverfi og stór hluti samstarfsfólks míns hefur annað hvort hætt eða því verið sagt upp og þetta er því ekki alveg sama fyrirtæki." Gerður eignaðist son í lok ársins og erfinginn litli er orðinn tveggja mánaða gamall og undurfagur að sögn móðurinnar. Hann var nefndur Kristján Skírnir og er Kristjánsson. "Fyrra nafn hans er í höfuðið á okkur foreldrunum og það seinna út í bláinn. Reyndar hét skósveinn Freys úr goðafræðinni Skírnir og hann bað Gerðar fyrir Frey, svo þetta er að vissu leyti tengt mínu nafni." Gerður Kristný efast ekki um að hún snúi aftur í fjölmiðlaheiminn þó ekki væri nema að hluta til. "Ég á eflaust eftir að grípa í þetta þó það væri ekki nema að skrifa eina og eina grein eða láta eitthvað að mér kveða í útvarpinu. Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að gera þætti. Ég á samt ekki eftir að sjá neitt eftir ritstjórnarstarfinu þar sem það var alfarið mín ákvörðun að hætta. Sex ár er frekar langur tími sem ritstjóri og sá lengsti sem einhver hefur setið þarna hjá Mannlífi. Blaðið sjálft hefur líka breyst að ýmsu leiti og til dæmis fór aukablöðunum fjölgandi. Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi notið þess að ritstýra bílablaðinu," segir Gerður og hlær. Aðspurð hvort eitthvað standi upp úr á ritstjóraárunum nefnir hún nokkur atriði. "Mér tókst til dæmis að fá mann til að játa á sig morð áður en lögreglunni tókst það. Einnig skrifaði ég grein um unga konu sem stundaði vændi í reykjavík, þjáðist af geðveiki, og svipti sig að lokum lífi en sú grein vakti athygli og skipti mig miklu máli. Ég er líka stolt af því að hafa tekist að koma blaðinu á réttan kjöl þegar ég tók við 1998, en þá stóð til að leggja það niður. Einnig segir Gerður í léttum tón að hún sé mjög ánægð með að hafa fundið upp orðið "krúttkynslóðin" sem virðist ætla að festa sig í tungunni. Eitt telur hún víst og það er að hún hefur alltaf og mun alltaf hafa þörf fyrir að skrifa. "Ég hef verið að skrifa frá því að ég man eftir mér enda hefur mér alltaf legið eitthvað á hjarta."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.