Innlent

Vatn Eyjabakka virkjað

Við rætur Snæfells upp undir Vatnajökli vinna nú tugir manna að virkjunarframkvæmdum á Eyjabökkum. Þar verður Jökulsá í Fljótsdal beisluð til að þjóna Kárahnjúkavirkjun. Við fáum reglulega fréttir af stíflugerðinni við Kárahnjúka en þar er verið að beisla Jökulsá á Dal. Þaðan er verið að grafa 40 kílómetra löng jarðgöng sem vatninu verður veitt um að stöðvarhúsi við Valþjófsstað í Fljótsdal. En það á að ná í vatn víðar að með því að beisla annað stórfljót, Jökulsá í Fljótsdal, en það verður gert með stíflu við Eyjabakka og 13 kílómetra jarðgöngum þaðan. Upphaflega stóð til að sökkva Eyjabökkum og gera þar stórt miðlunarlón. Þau áform mættu harðri andstöðu náttúruverndarsamtaka og var fallið frá þeim fyrir fimm árum þegar erlendir samningsaðilar vildu stærra álver sem kallaði á meiri orku. Það var þó aldrei hætt við að virkja vatnið af Eyjabökkum, það verður í staðinn gert með með litlu lóni. Með 620 metra langri og 37 metra hárri stíflu þvert yfir verður vatnsrennsli tekið að hluta af magnaðri fossaröð milli Eyjabakka og Fljótsdals og sett í neðanjarðargöng. Á vegum Arnarfells vinna nú 70 manns að því að grafa fyrsta áfanga ganganna. Þorbjörn Haraldsson, öryggisstjóri Arnarfells segir þá hafa byrjað vegaframkvæmdir og uppsetningu á búðum í ágúst í fyrra. Framkvæmdir stóðu yfir allan veturin og hann segir hafa gengið á ýmsu en veturinn hafi ekki verið harður en þó vindasamur. Þetta er langstærsta verkefni sem Arnarfell hefur tekið að sér, upp á um tvo milljarða króna. Meginþátturinn felst í að grafa 3,5 kílómetra göng á móti einum risabornum sem er ætlað að grafa á móti frá hinum endanum.  Þarna eru menn að störfum upp undir Vatnajökli í 600 metra hæð yfir sjávarmáli en kvarta ekki enda í stórbrotnu umhverfi við rætur Snæfells á hreindýraslóðum.  Þorbjrön segir dásamlegt að vinna í þessu umhverfi og að andstæðurnar séu miklar og náttútufegurðin einstök.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×