Innlent

Breskir fjölmiðlar um Baugsmálið

Breskir fjölmiðlar virðast ganga út frá þeirri staðreynd að hefndarhugur og pólitísk óvild hafi verið kveikjan að rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á hendur Baugsmönnum. Mikið hefur verið fjallað um málið að undanförnu í Bretlandi og hafa margir blaðamenn líkt viðskiptaháttum Íslands við Rússland og segir meðal annars í The Independant að það sé ekkert leyndarmál að óvild ríki á milli Davíðs Oddssonar fyrrverandi forsætisráðherra og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Fagrar konur, samsæriskenningar, morðhótanir, ásakanir um mútur, peningar og völd eru sögð efniviðurinn í þessarri íslensku sápuóperu segir í viðskiptahluta The Sunday Times í dag. Svo virðist sem breskir blaðamenn séu jákvæðir í garð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Baugs og telji að ákærur ríkislögreglustjóra einungis stórt verkefni sem fyrirtækið og forsvarsmenn þess þurfa að takast á við. Í The Sunday Times segir að eingöngu tvær af fjörutíu ákærum lúti að upphaflegum kvörtunum Jóns Geralds Sullenbergers sem haft er eftir Jóni Ásgeiri að hafi hótað sér lífláti. Meirihluti saka, eða tuttugu af fjörutíu snúi að viðskiptum Baugs og Gaums, afgangurinn varði bókhaldsbrot, brot á tollalögum og misnotkun á kreditkortum fyrirtækisins. Davíð Oddsson sagði í viðtali við Stöð tvö í lok júní eftir að Jón Ásgeir hafði viðrað þá skoðun sína á BBC að rætur rannsóknarinnar væru pólitískar, að ef það væri rétt hjá forstjóranum hefði hann ekkert að óttast. Íslenskir dómstólar yrðu fljótir að henda málinu út kæmi það í ljós að lögreglan hefði einungis verið að hlýða skipunum stjórnmálamanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×