Erlent

Verkfallið stendur enn yfir

Engin málamiðlun náðist eftir fyrsta fund fulltrúa verkalýðsfélags starfsmanna almenningssamganga og forsvarsmanna samgönguyfirvalda í New York, sem haldinn var í morgun en verkfall hefur staðið yfir í þrjá daga. Viðskipti vegna verkfallsins hafa dregist mikið saman.

Helsta deilumálið er sagt standa um lífeyrissjóðsmál. Ríkisstjóri New York-ríkis, og borgarstjóri í New York, segja mikilvægt að verkfallinu ljúki áður en samningaviðræður hefjast á ný í byrjun janúar. Borgin geti ekki virkað án almennilegra samgangna. Samgönguyfirvöld hafa gripið til þess óvenjulega ráðs að láta gera sjónvarpsauglýsingar þar sem starfsfólk í almenningssamgöngukerfi borgarinnar er hvatt til að hefja störf að nýju en sérfræðingar segja þó líkur á því vera litlar. Viðskipti í New York hafa dregist mikið saman vegna verkfallsins. Veitingaeigendur segja samdráttinn nema um 40% og verslunareigendur á nokkrum stöðum segja hann um 60%. Að sögn New York Times eru óvenju fáir á ferli við verslunargötur borgarinnar nú þegar tveir dagar eru til jóla.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×