Erlent

Börðu mann til óbóta

Tveir lögreglumenn í New Orleans hafa verið reknir úr starfi fyrir að berja menn til óbóta eftir að fellibylurinn Katrín gekk yfir borgina. Robert Davis, sem er blökkumaður, hafði snúið aftur til New Orleans til þess að gæta að húsi sínu. Hann kveðst hafa farið í franska hverfið í borginni, til þess að reyna að ná sér í sígarettur, þegar atvikið átti sér stað.

Fréttamenn Associated press voru á staðnum, og mynduðu barsmíðarnar. Einn lögreglumannanna bannaði þeim að mynda. Þegar fréttamaður sýndi honum skilríki sín, réðst lögregluþjónninn á hann, keyrði hann afturábak yfir vélarhlífina á bíl, rak kylfu sína í magann á honum og jós yfir hann fúkyrðum.

Tveir lögreglumannanna hafa nú verið reknir úr starfi, fyrir fullt og allt, og einum verkið vikið tímabundið. Samtök lögreglumanna hafa mótmælt þeirri gjörð, og hyggjast höfða mál gegn borgarstjórninni.

Tveir alríkislögreglumenn tóku þátt í að yfirbuga Robert Davis, og er mál þeirra til rannsóknar.

Lögreglan í New Orleans hefur löngum verið sökuð um kynþáttamisrétti. Robert Davis er svertingi, en lögregluþjónarnir þrír eru allir hvítir. Davis hefur raunar sagt að hann telji ekki að litarháttur sinn hafi skipt máli í þessu tilfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×