Erlent

Sharon líklega heim af spítalanum á morgun

MYND/AP

Heilsa Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, virðist ekki hafa beðið alvarlegan hnekki þegar hann fékk vægt heilablóðfall um helgina. Hann útskrifast að líkindum af sjúkrahúsi á morgun, og ætlar að halda sínu striki og stefna á endurkjör í kosningum sem fara fram eftir þrjá mánuði.

Vanheilsa eins manns getur haft áhrif á milljónir manna og þróun stjórnmála, stríðs og friðar á stórum landsvæðum svo er um Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, vegna hlutverks hans í átökum Ísraela og Palestínumanna. Mönnum brá því þegar hann fékk vægt heilablóðfall, og var lagður inn á sjúkrahús.

Það eru rétt rúmir þrír mánuðir í þingkosningar í Ísrael. Sharon sagði sig úr Likudflokknum fyrir tæpum tveimur mánuðum og stofnaði annan flokk, Kadima flokkinn, og er talin líklegur til sigurs. Spurningin er hvort það hafi breyst eftir þessi veikindi.

Heilablóðfallinu fylgdi engin lömun eða meðvitundarleysi, aðeins örlitlir talerfiðleikar sem nú eru farnir að sögn lækna. Í útvarpsviðtali í morgun sagðist Sharon ætla að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist og stefndi því enn að framboði í næstu þingkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×