Innlent

Vaxtahækkunin er ekki of lág

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, varði síðustu vaxtahækkun á fundi viðskiptaráðs í morgun.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, varði síðustu vaxtahækkun á fundi viðskiptaráðs í morgun.

25 punkta vaxtahækkun í framhaldi af 75 punkta hækkun er ekki lítil hækkun sagði Davíð Oddsson Seðlabankastjóri þegar hann svaraði gagnrýni greiningardeilda á vaxtahækkun bankans fyrir helgi. Forstöðumenn greiningardeildanna greinir á um hvort vaxtahækkunin hafi verið nægjanleg.

Greiningardeildir Íslandsbanka og KB-banka gagnrýndu tuttugu og fimm punkta vaxtahækkun fyrir helgi og töldu of lítið gert. Greiningardeild Íslandsbanka taldi trúverðugleika Seðlabanka í hættu og Greiningardeild KB-banka sagði bankastjórn taka óþarfa áhættu með því að hækka vextina ekki meira. Davíð Oddsson, forseti bankastjórnar Seðlabankans, svaraði þessari gagnrýni á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun. Hann sagði að menn yrðu að horfa á 25 punkta vaxtahækkun bankans í samræmi við 75 punkta hækkun hans síðast. 25 punkta hækkun eftir 25 punkta hækkun væri lítið en 25 punkta hækkun í framhaldi af 75 punkta hækkun væri ekki lítið.

Davíð sagðist að þó gæta þyrfti aðhalds væru horfur í íslensku efnahagslífi góðar. Dregið hefði úr hækkun íbúðaverðs, olíuverð væri stöðugt og launaskrið væri ekki meira en svo að menn hefðu tök á því.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningardeildar Íslandsbanka stendur við gagnrýni sína á vaxtahækkunina. Hann telur að Seðlabanki hefði þurft að hækka vexti meir og að trúverðugleiki hans sé í hættu. Ingólfur telur afleiðingar lítillar vaxtahækkunar geta orðið þær að verðbólga lækki ekki eins og vonast sé til og að vextir kunni jafnvel að lækka í stað þess að hækka.

Forstöðumenn Greiningardeildanna eru ekki á eitt sáttir um þetta. Ekka Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbanka, segir vaxtaákvörðun Seðlabankans skynsamlega og trúverðuga og gott innlegg í baráttuna gegn verðbólgunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×