Innlent

Nýrnasjúklingar óttast framtíð blóðskilunardeildar

MYND/Vísir

Nýrnasjúklingar sem þurfa að leita til blóðskilunardeildar eru uggandi yfir þeirri stöðu sem komin er upp á blóðskilunardeild. Þeir óttast að allt stefni í óefni en allar líkur eru á að átta af sextán starfsmönnum deildarinnar láti af störfum um áramótin.

Hjúkrunarfræðingar sætta sig ekki við nýtt vaktafyrirkomulag á blóðskilunardeild Landspítala Háskólasjúkrahús sem þýðir að vaktir þeirra verða styttri en miklu fleiri. Átta af sextán hjúkrunarfræðingum deildarinnar líta á ákvörðun um breytt vinnufyrirkomulag sem uppsögn á ráðningarsamningi og að óbreyttu munu þeir hætta um áramótin. Blóðskilun er lífsnauðsynleg mörgum nýrnasjúklingum

Sigurjón Björn Sveinsson fékk grætt í sig nýra fyrir átján árum. Í haust gaf nýrað sig og bíður hann því eftir að fá annað nýra. Hann hefur því þurft að mæta þrisvar í viku í blóðskilun síðan í haust. Hann líkt og fleiri nýrnasjúklingar er uggandi yfir þeirri óvissu sem einkennir deildina. Hann segir að ekki sé aftur snúið eftir fyrsta desember. Hjúkrunarfræðingarnir séu þá farnir að leita sér að nýrri vinnu og ekki víst að þeir hafi tök á því að halda áfram vinnu á deildinni verði þeim boðið það sem þeir vilja.

Sigurjón segir að heilbrigðisyfirvöld verði að grípa inn í áður en í óefni verið komið. Um líf og dauða sjúklinga er að ræða. Hann trúir ekki öðru en að stjórnvöld grípi inn í. Mikil óvissa sé meðal sjúklinga og aðstandenda þeirra um hvernig málið fari og mikilvægt að leysa þetta hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×