Innlent

Hafna ásökunum um pyntingar

Írösk stjórnvöld hafna því að víðtækar pyntingar á föngum viðgangist í Írak. Bandaríkjamenn segjast ekki hafa framið stríðsglæpi með því að varpa hvítum fosfór í átökum um íröksku borgina Fallujah í fyrra.

Mánuði fyrir kosningar í Írak magnast enn gagnrýni á veru Bandaríkjamanna þar og á íröksku stjórnina, sem fer með völd í skugga bandaríska herliðsins.

Súnnítar í Írak krefjast rannsóknar á ásökunum um að á annað hundrað manns hafi verið pyntaðir í leynifangelsum í Bagdad. En íraski innanríkisráðherrann segir ekkert satt í fréttum um pyntingar, að minnsta kosti hafi ekki svona margir verið pyntaðir.

Á sama tíma er Bandaríkjaher sakaður um stríðsglæpi með því að nota hvítan fósfór í árásunum á Fallujah í fyrra. Fósfór brennir sig í gegnum hörundið, ef hann lendir á fólki. Tæknilega séð er ekki bannað að nota fósfór í hernaði, en Genfarsamningarnir banna vopnabeitingu sem er þess eðlis að ekki sé hægt að greina á milli óbreyttra borgara og hermanna. Fulltrúar hinna ýmsu stjórnarstofnana í Bandaríkjunum hafa ýmist neitað því algjörlega að hafa beitt hvítum fósfór eða viðurkennt að slík vopn hafi verið notuð í Fallujah, en bara gegn andspyrnumönnum, ekki gegn óbreyttum borgurum. Cheney varaforseti blæs á alla gagnrýni um innrásina og veru bandaríska herliðsins í Írak.

Í dag sagði virtur þingmaður demokrata í Bandaríkjunum að réttast væri að kalla herinn heim frá Írak. Margir óttast að þá fyrst fari allt í bál og brand í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×