Innlent

Kostur að kunna pólsku

MYND/GVA

Það telst nú orðið til kosta íslenskra verkamanna, sem leita sér að vinnu á Mið-Austurlandi, að kunna eitthvað í pólsku og getur sú kunnátta vegið þyngra en vinnuvélaréttindi og meirapróf.

Fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar er kunnugt um mann sem framvísaði bæði vinnuvélaréttindum og meiraaprófi, en það var ekki málið, heldur hvort hann kynni eitthvað í pólsku. Reyndar fékk viðkomandi vinnuna en ástæða þessarar kröfu var sú að þónokkrir pólverjar vinna hjá fyrirtækinu og valda tungumálaerfiðleikar oftar en ekki töfum og misskilningi.

Þá ganga þrálátar sögusagnir um það að sumir verktakar vilji hreinlega útlendinga frekar en Íslendinga, meðal annars vegna þess að hægt sé að láta útlendinga vinna hvenær sem á þarf að halda og eins lengi og vinnuveitendum sýnist hvern dag.

Hjá Svæðisvinnumiðlun Ausutrlands fengust þær upplýsingar að sumir erlendir verkamen standi í þeirri trú að þeir eigi orðalaust að vinna eins mikið og vinnuveitandinn óskar eða krefst, en miðluninni væri ekki kunnugt um óyggjandi dæmi þess að vinnuveitendur tækju útlendinga, einkum Pólverja, fram yfir íslendinga vegna þessa. Segja mætti að allir vel vinufærir menn á Mið-Austurlandi hefðu nú fulla vinnu, en ástandið væri heldur erfiðara á jaðarsvæðunum. Á móti kæmi að innlent vinnuafl væri orðið hreyfanlegra en áður þannig að fólk lagaði sig meira að vinnumarkaðnum en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×