Innlent

Sala á Tamiflu tekur kipp

Sala á flensulyfinu Tamiflu hefur tekið kipp hér á landi vegna frétta af fuglaflensu undanfarið. Læknar segja marga ruglaða í rýminu og ekki vita að flensan berist ekki enn á milli manna.

Í bæði Danmörku og Noregi hefur fólk hamstrað flensulyfið Tamiflu undanfarið, í þeim tilgangi að vera við öllu búið ef fuglaflensufaraldur breiðist út. Þannig er lyfið til að mynda uppselt hjá heildsölum í Danmörku og í Noregi hafa ápótekin vart undan vegna eftirspurnar.

Þótt salan sé öllu rólegri hér á landi, er hún samt miklu meiri en alla jafna á þessum árstíma. Í heilsugæslunni í Árbæ hafa verið pantaðir meira en helmingi fleiri skammtar af Tamiflú en í venjulegu árferði. Læknar þar segja marga koma og spyrjast fyrir um meðul við fuglaflensu og almennt sé fólk ansi ruglað í rýminu. Það geri ekki greinarmun á fugleflensunni sem nú herji á dýrin og þeirri stökkbreyttu útgáfu sem kynni að breiðast á milli manna. Margir standi í þeirri trú að flensan smitist þegar beint á milli manna.

Á nokkrum heilsugæslustöðvum sem fréttastofa hafði samband við í gær sögðu læknar að margir sem fengju hefðbundna flensusprautu spyrðust fyrir um hvort hún dyggði líka gegn fuglaflensu. Þá er líka eitthvað um að fólk hringi á heilsugæslustöðvar, til að spyrjast fyrir um varnir gegn fuglaflensu.

Í Lyfju í Kópvaogi hefur orðið marktæk aukning á sölu Tamiflu. Þar á bæ segja starfsmenn að miklu fleiri skammtar hafi selst undanfarna tvo mánuði en alla jafna. Venjulega sé lítið keypt af flensulyfjum í september og október, en hún aukist síðan þegar nær dregur jólum. Nú sé þessu hins vegar öðruvísi farið og þegar hafi töluvert selst af flensulyfjum, einkum Tamiflu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×