Innlent

Brunavörnum verulega ábótavant

MYND/Vísir

Engar úrbætur hafa verið gerðar á brunavörnum í húsnæðinu að Lágmúla 6-8, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar um af hálfu eldvarnareftirlitsins. Eigandi fasteignarinnar er nú beittur dagsektum.

Brunavarnir í byggingunni, þar sem Bræðurnir Ormsson og Frjálsi fjárfestingabankinn eru meðal annars til húsa, hafa verið í ólestri í töluverðan tíma. Skráður eigandi fasteignarinnar er Fasteignafélagið Hlíð ehf. Að sögn Bjarna Kjartanssonar, framkvæmdastjóra forvarnadeildar slökkviliðsins, skoðaði Eldvarnareftirlitið bygginguna í maí síðastliðnum og kom þá í ljós að fjölmargt vantar upp á til að brunavarnir séu eins og vera ber. Til að mynda er ekkert sjálfvirkt eldvarnarkerfi í húsinu og flóttaleiðir eru ekki nægilega greiðar.

Eldvarnareftirlitið sendi Hlíð bréf í byrjun júní þar sem þess var krafist að gerð væri bragarbót á en engin viðbrögð fengust við þeim kröfum. Í september var svo send ítrekun, en án árangurs. Þá sendi eldvarnareftirlitið bréf til borgarráðs þar sem óskað var eftir að dagsektum yrði beitt gegn Hlíð og var það samþykkt þann 21. október síðastliðinn. Hver sekt er upp á 19 þúsund krónur.

Að sögn framkvæmdastjóra forvarnardeildar slökkviliðsins er ekki krafist dagsekta vegna skorts á brunavörnum þegar aðeins er hætta á tjóni á eignum, heldur einungis þegar öryggi fólks er ógnað.

Ekki hefur tekist að hafa uppi á forsvarsmönnum Hlíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×