Innlent

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja taki að sér sjúkrahússþjónustu fyrir Varnarliðið

Varnarliðið á æfingu
Varnarliðið á æfingu MYND/E.Ól.

Verið er að kanna möguleika á því að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja taki að sér sjúkrahússþjónustu fyrir Varnarliðið þegar flugherinn tekur við herstöðinni af sjóhernum. Nú þegar er samstarf á milli sjúkrahússins í Keflavík og á Vellinum á vissum sviðum og gæti það aukist til muna á næstunni þar sem bandaríski flugherinn rekur yfirelitt ekki sjúkrahús eins og flotinn gerir. Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar, segir við Víkurfréttir að á næstunni sé von á sendinefnd ofan af velli til að kanna þessa möguleika nánar. Upp úr því fari hlutirnir að skýrast. Kröfur hafa verið uppi um það meðal Suðurnesjamanna að sólarhringsvakt verði á sjúkrahúsinu í Keflavík en heilbrigðisyfirvöld hafa ekki fundið fjármagn til að tryggja þann rekstur. Náist hins vegar samkomulag um að stofnunin taki að sér sjúkrahússþjónustu fyrir Varnarliðið binda Suðurnesjamenn vonir við að sá draumur rætist. Sjúkrahúsinu á vellinum yrði þá væntanlega lokað og fækkaði þá enn í röðum Bandaríkjamanna á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×