Innlent

Ný tegund ökuréttinda vegna pallbíla

Byrjað er að bjóða upp á nýja tegund ökuréttinda til þess að koma til móts við þá sem eiga pallbíla, en margir bílanna eru það þungir að almenn ökuréttindi duga ekki til.

Innflutningur á pallbílum frá Bandaríkjunum hefur heldur betur færst í aukana undanfarin misseri, meðal annars vegna lágs gengist dollarans. Hafa margir ökumenn af yngri kynslóðinni, þ.e. þeir sem fengu ökuréttindi eftir 1. júní 1993, vaknað upp við vondan draum og uppgötvað þeir hafi ekki réttindi til þess að aka þeim. Þetta er vegna þess að pallbílarnir eru of þungir, en ef bílar fara yfir 3,5 tonn flokkast þeir sem vörubílar og þá þarf sérstök réttindi til að aka þeim.

Við þessu hefur Umferðarstofa nú brugðist og breytt reglum þannig að nú er boðið upp á sérstakt ökunám sem er styttra og ódýrara en ökunám til meiraprófs en gefur réttindi á þessa millistærð af bílum. Jafnframt geta ökumenn öðlast réttindi á lítinn vörubíl og litla rútu með prófinu.

Kennsla er þegar hafin að sögn Einars Magnúsar Magnússonar, upplýsingafulltrúa Umferðarstofu. Hann segir ökumenn geta öðlast réttindin hjá ökuskólum og ökukennurum sem hafa til þess tilskiln réttindin og því sé um að gera að taka bara upp símann og panta tíma.

Þeir sem ætla að bæta þessum réttindum við sig þurfa að sækja almennt grunnnám í ökuskóla og bæta við sig 10 kennslustundum um stór ökutæki. Einnig þarf að taka sex ökutíma. Aldurstakmark fyrir litla vörubifreið er 18 ár en 21 ár fyrir litla rútu. Þá gilda ökuréttindin fyrir þessa flokka í 10 ár.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×