Innlent

Tónlistarmyndbönd hafi slæm áhrif á ímynd stúlkna

Tónlistarmyndbönd geta haft slæm áhrif á sjálfsímynd stúlkna. Þessi myndbönd sýna gjarnan tágrannar stelpur í flegnum fötum, en eins og kunnugt er þá hafa ekki allar stúlkur þessa líkamsbyggingu. Ímynd stúlkna var rædd á ráðstefnu uppeldis- og mannfræðinema.

Draumalíkaminn er óraunhæf ímyndun en er samt notuð sem raunveruleg fyrirmynd. Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræði, segir að í tónlistarmyndböndum séu líkamar yfirleitt mjög grannir og þar sé það látið líta þannig út að það skipti miklu máli að hafa draumalíkamslagið. Stelpurnar í myndböndum séu nettar, grannar og sæta og þær eigi það sameiginlegt að það sé ofsalega gaman hjá þeim.

Ingunn Ásta segir menninguna líka ýta undir að þetta útlit sé eftirsóknarvert. Margir séu í heilsuátaki og það virðist skipta miklu máli að vera í formi. Hún telur að unglingar passi sérstaklega illa inn í mótið því þeir séu á mismunandi stað í þroska. Það sé mjög erfitt fyrir þá að upplifa það að þeir passi ekki inn í mótið.

Ingunn segir öfgar gera heilsuna verri en ekki betri aðspurð um hvort það sé ekki að einhverju leyti ágættað stúlkur vilji vera grannar þegar horft er til þess að að fólk í hinum vestræna heimi er að þyngjast.Hún telur að í mörgum myndböndum sé verið að selja lög út á hreinan kynþokka og kynlíf og hún hugsi með sér hvað 11-12 ára stelpur sjái í þeim. Stúlkurnar í myndböndunum séu oft að selja líkama sinn einhverjum karlmanni og reyna að fá sínu framgengt með því að dilla bossanum fram í hann.

En hvað um fötin sem fást á ungar stúlkur í verslunum og sumar fá að ganga í ? Ingunn segist hafa frétt af sjö ára stúlkum í G-strengsnærbuxum og hún hafi séð litlar stelpur í magabolum. Hún sé ekki á móti því að litlar stelpur séu í hlýrabolum í sumarhitanum en það sé óþarfi að gera út á það að kaupa föt sem feli í sér ákveðin skilaboð til þeirra sem eru í umhverfi stúlknanna.

Ingunn segir óraunhæft að ætla að líkjast poppsöngkonum sem líti oft út eins og konur í erótískum myndum. Hægt sé að ræða við börn um skilaboðin í myndböndunum, um fötin og fá álit þeirra. Reyna eigi að hjálpa þeim að skilja þetta sé ekki raunveruleikinn þótt þau upplifi það þannig.

Ýmislegt er hægt að gera til að sporna við áhrifum efnis sem gerir út á kynþokka. Til dæmis er hægt að banna börnum að hafa sjónvarpstæki í herbergjunum sínum svo þau geti ekki horft á sjónvarpið eftirlitslaus. Betra væri að fylgjast með því sem börnin horfa á og ræða innihald þess. Einnig er hægt að hvetja börn til að gera sér annað til skemmtunar en að horfa á sjónvarp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×