Innlent

Libby lýsir sig saklausan vegna lekamáls

Lewis Libby mætir fyrir rétt í dag.
Lewis Libby mætir fyrir rétt í dag. MYND/AP

Lewis Libby, fyrrverandi starfsmannastjóri Dicks Cheneys, varaforseta Bandaríkjanna, lýsti sig saklausan við upphaf réttarhalda yfir honum vegna hins svokallaða lekamáls í dag.

Libby var í síðustu viku ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir meinsæri við rannsókn á því hvernig nafni leyniþjónustukonunnar Valerie Plame var lekið í fjölmiðla á miðju ári 2003. Eiginmaður Plame, sem er fyrrverandi sendiherra, sakar stjórn Bush Bandaríkjaforseta um að hafa lekið nafninu til þess að hefna sín vegna gagnrýni sendiherrans á stjórnina fyrir að hagræða upplýsingum um kjarnorkuvopnaeign Íraka í aðdraganda Íraksstríðsins.

Talið er að réttarhöldin geti skaðað stjórnvöld í Bandaríkjunum mikið, en Karl Rove, einn af helstu ráðgjöfum Bush forseta, hefur einnig verið bendlaður við lekann. Hann var þó ekki ákærður í síðustu viku en sætir enn rannsókn og gæti verið ákærður síðar fyrir aðild sína að málinu.

Hugsanlegt er að Cheney og fleiri háttsettir menn innan Bandaríkjastjórnar verði kallaðir til vitnis í réttarhöldunum. Þeim hefur verið frestað til 3. febrúar á næsta ári en verði Libby sakfelldur á hann yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×