Innlent

Segir kaupmátt margra ASÍ-félagsmanna hafa minnkað

Kaupmáttur stórs hluta félagsmanna Alþýðusambandins hefur minnkað undanfarna tólf mánuði að mati hagfræðings sambandsins. Hann segir verðbólguforsendur kjarasamninga löngu brostnar.

Laun hafa að jafnaði hækkað um þrjú prósent frá áramótum en á sama tíma hefur verðbólgan rokið upp. Fyrir vikið eru forsendur kjarasamninga brostnar að mati Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ. Hann segir að gert hafi verið ráð fyrir að því að verðbólga yrði sem næst 2,5 prósentum á samningstímanum en hún sé nú 4,6 prósent. Það sé því ljóst að verðbólguforsenda samninganna sé brostin.

Nú er að störfum sérstök nefnd sem metur forsendur kjarasamninga. Þó að þær séu brostnar getur nefndin komist að samkomulagi um að bæta upp það sem aflaga hefur farið miðað við samninga. Niðurstaða nefndarinnar á að liggja fyrir eigi síðar en fimmtánda þessa mánaðar.

Verðbólgan undanfarna tólf mánuði hefur orðið til þess að laun þeirra sem ekki hafa fengið sérstakar umframhækkanir hafa ekki náð að halda í við hana. Ólafur segist ekki þora að fullyrða að það sé meirihluti en hann fullyrði að stórir hópar og jafnvel meirihluti hafi orðið fyrir kaupmáttarskerðingu miðað við hefðbundnar mælingar, þ.e. með því að draga verðbólguna frá launahækkunum. Laun hafi hækkað um þrjú prósent en verðbólga sé 4,6 prósent og því hafi kaupmáttur rýrnað sem nemi mismuninum, eða um 1,6 prósent.

Kaupgleði Íslendinga um þessar mundir er mikil. Gildir þá einu hvort um er að ræða nauðsynjar eða lúxusvöru. En hvaðan komu peningarnir? Ekki úr launaumslaginu að mati Ólafs Darra. Hann segir að nú sé komið fram nýtt hugtak, kaupgeta. Fólk hafi mikið aðgengi að lánsfé á hagstæðari kjörum en oft áður og það sé fyrst og fremst það sem skýri innkaupagleði margra þessa dagana.

Í morgun áttu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar fund með þremur ráðherrum þar sem farið var yfir hugsanlega endurskoðun kjarasamninga. Náist ekki samkomulag um hvernig megi bæta launafólki þá kjaraskerðingu sem verðbólgan hefur valdið öðlast aðildarfélögin heimild til að segja kjarasamningum upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×