Innlent

Bandaríkjamenn hafa ekki svarað fyrirspurnum um fangaflug

Bandaríska leyniþjónustan CIA er með leynileg fangelsi fyrir meinta hryðjuverkamenn í Austur-Evrópu og vísbendingar eru um að fangar hafi verið fluttir þangað um Ísland. Bandarísk stjórnvöld hafa engu svarað fyrirspurnum Íslendinga um málið.

Ekki sjaldnar en níu sinnum er talið að flugvélar á vegum CIA hafi millilent hér á landi með fanga sem flytja átti til landa þar sem hægt væri að yfirheyra þá og pynta. Það gerist reglulega að millilent sé hér á landi með fólk sem flutt er á milli svæða, eins og það er orðað. Þetta eru vélar sem flytja ólöglega innflytjendur og aðra sem verið er að vísa á milli landaenlíka meinta hryðjuverkamenn.

Þegar vélar af þessu tagi millilenda í Keflavík er um borð fjöldi vopnaðra manna enda talið að farþegarnir séu óæskilegt fólk. Vélarnar fá þjónustu, sem er oftast nær einungiseldsneyti, en dyrnar eru ekki opnaðar, enginn fer um eða frá borði og því eru vélarnar til að mynda ekki tollafgreiddar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofuStöðvar 2vita íslensk yfirvöld af flugferðum af þessu tagi og gera ráðstafanir ef þurfa þykir, en þær eru að jafnaði ekki miklar þar sem flytjandi sér um öryggismál.

Bandaríkjamönnum ber skylda til að láta vita ef flug á vegum hins opinbera fer um Keflavíkurflugvöll en sé það á vegum borgaralegra verktaka ber þeim engin skylda til þess. Það er einmitt málið, það eru verktakar sem sjá um fangaflugið. Þannig snúa Bandaríkjamenn sig út úr málinu og þurfa engum að segja neitt.Samkvæmt upplýsingum fréttastofu munu vera dæmi um að verktakarnir "leigi" vélar frá Bandaríkjastjórn svo að þeir komi í raun aðeins nálægt fluginu á pappírum, nóg til að villa um fyrir stjórnvöldum þar sem vélarnar fara um.

Ragnheiður Árnadóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir bandarísk stjórnvöld ennþá engu hafa svarað fyrirspurnum Íslendinga um fangaflugið.

Fréttastofan hefur reynt að rekja eitt þeirra fyrirtækja sem skráð var fyrir einu fluginu sem talið er að hafi verið fangaflug. Þrátt fyrir ákafa leit og ítrekaðar tilraunir var ekki hægt að komast að meiru um fyrirtækið en hvar það var skráð, en forráðamenn eða símanúmer var hvergi að finna - sem sagt hálfgert draugafyrirtæki.

Washington Post greindi frá því í dag að leyniþjónustan CIA flytti meinta hryðjuverkamenn oft til leynifangelsa í Austur-Evrópu, á svokallaða svarta staði, þar sem föngunum er haldið og þeir yfirheyrðir. Ekki er greint frá því um hvaða lönd ræðir. Einungis æðstu ráðamenn vestra og í löndunum sem um ræðir eru sagðir hafa vitað af fangelsunum sem áður tilheyrðu sovésku kerfi. Þessi háttur var tekinn upp eftir árásirnar á tvíburaturnana 11.september 2001.

Hverjir eru í haldi eða hvað er gert við þá er ekki vitað en ljóst er að einhvern veginn hafa þeir verið fluttir á áfangastað. Vitað er um þrjátíu fanga á þessum svörtu stöðum. Sumar vélarnar sem millilentu hér á landi voru ýmist að koma frá Austur-Evrópueða á leið þangað. Talsmenn CIA neita að ræða málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×