Innlent

Ábyrgðarmaður og ritsjtórn ósammála

Vilhjálmur Rafnsson ábyrgðarmaður Læknablaðsins segist ekki ætla að segja af sér ábyrgðarmennsku eins og ritnefnd Læknablaðsins lagði til á fundi síðastliðinn mánudag. Kári Stefánson hefur nú kært Vilhjálm til siðanefndar lækna vegna greinar Jóhanns Tómassonar "Nýi sloppur keisarans" sem birtist í septemberútgáfu Læknablaðsins.

Grein Jóhanns er ádeila á ráðningu Kára Stefánssonar á taugadeild Landsspítala og þar fer hann hörðum orðum um bæði náms- og starfsferil Kára. Í yfirlýsingu sem Vilhjálmur sendi frá sér í dag segir hann að Jóhann beri sjálfur ábyrgð á skrifum sínum.

Hann bendir jafnframt á að eftir birtingu greinarinnar hafi risið deilur í ritnefndinni um það hvernig og hvort bregðast skyldi við óskum um að draga greinina til baka og einnig hvort beðist skyldi afsökunar. En í millitíðinni hefði stjórnum bæði Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, sem eru eigendur Læknablaðsins, borist formlegar kröfur um slíkt frá lögmanni Kára Stefánsonar ásamt fyrirspurnum um birtinguna.

Í októberhefti Læknablaðsins gáfu fjórir ritnefndarmenn frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að birting greinarinnar hafi verið mistök. Einnig sögðu ritnefndarmennirnar að þeir telji ritnefndina vanhæfa til þess að fjalla um málið.

Í yfirlýsingu Vilhjálms kemur einnig fram að einn ritnefndarmaður sagði af sér síðastliðinn mánudag og að á fundi útgáfustjórnar sama dag hafi þrír ritnefndarmenn komið með tilmæli um að öll ritnefndin ásamt Vilhjálmi Rafnssyni, ábyrgðarmanni blaðsins segði af sér. Vilhjálmur segist ekki vera sammála þeirri tillögu og ætlar því ekki að segja af sér og einnig bendir hann á að ekki hafi enn borist formlegar úrsagnir ritstjórnarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×