Innlent

Jólafrímerki með ilm af jólum

MYND/Íslandspóstur

Íslandspóstur gefur út tvær frímerkjaraðir á morgun, 3. nóvember. Myndefnin á þeirri fyrri er grágæs og stari en í hinni eru jólafrímerkin í ár. Jólafrímerkin eru sérstök að því leyti að þau eru með greni-, epla- og kanelilm.

Myndefni fuglafrímerkjanna eru grágæs og stari. Grágæsir verpa á láglendi um allt Ísland og eru algengasta gæsategundin hér. Fyrir tíu árum fór fram í Skotlandi talning á grágæsum, en þar hefur meirihluti íslenska varpstofnsins vetursetu. Fuglarnir reyndust vera um 80.000 talsins. Grágæsir verpa 4-6 eggjum. Þær hverfa flestar til vetrarstöðvanna í seinni hluta október.

Starar eru nýlegir varpfuglar hérlendis. Fyrst er vitað með vissu um verpandi stara við Hornafjörð upp úr 1940. Þeir eru núna algengastir á stór-Reykjavíkursvæðinu en þangað komu þeir um 1960.

Myndefnin á jólafrímerkjunum 2005 er að þessu sinni epli og grenitré. Verðgildi þeirra er 50 kr og 70 kr. Jafnframt verður að venju gefið úr frímerkjahefti með 10 jólafrímerkjum.Jólafrímerkin vekja áreiðanlega minningar margra því þau höfða ekki aðeins til sjónar heldur einnig lyktarskynsins því þau eru með greni-, epla- og kanelilm. Ilmurinn af frímerkjunum er vægur en eykst ef yfirborð frímerkisins er strokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×