Innlent

Loksins samkomulag um nýtingu kolmunnaaflans

MYND/Eiríkur

Strandríki Evrópusambandsins, Ísland, Noregur og Færeyjar, náðu loks samkomulagi um nýtingu kolmunnaaflans á Norðaustur-Atlantshafi eftir sjö ára samningaþóf og fjölda funda. Viðræðurnar voru haldnar í Kaupmannahöfn og fá Íslendingar hátt í 18 prósent í sinn hlut, Evrópusambandið liðlega 30 prósent, Færeyjar rúm 26 prósent og Norðmenn tæp 26 prósent. Brýnt var að ná samkomulagi um nýtingu stofnsins þar sem hann flakkar á milli efnahagslögsagna ríkjanna og hefur hvert ríki nánast veitt að vild úr honum.

Að sögn Friðriks Arngrímssonar, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna sem sat samningafundinn, eru allir aðilar mjög ánægðir með að hafa náð samkomulagi en að sama skapi eru allir óánægðir með sinn hlut, og það eigi líka við íslendinga. Enn er eftir að útfæra framkvæmd samkomulagsins en Friðrik bjóst ekki við að hnökrar í því starfi hleypi samningnum upp. Menn meti það meira að hafa loks bundið enda á stjórnlausar veiðar úr stofninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×