Innlent

Ljósmyndir vegna vegabréfa teknar hjá sýslumönnum

Ráða þyrfti ljósmyndara við öll sýslumannsembætti landsins, að mati Ljósmyndarafélags Íslands, ætli ríkið að sjá um passamyndatöku í landinu, þar sem ljósmyndun er lögvernduð iðngrein.

Fulltrúar Ljósmyndarafélag Íslands ætla að leita skýringa á fundi með fulltrúum dómsmálaráðuneytis á morgun á áformum um að flytja ljósmyndatöku vegna vegabréfa inn í sýslumannsembættin.

Gunnar Leifur Jónasson, formaður Ljósmyndarafélagsins, segir að ef áætlanirnar gangi eftir þurfi að fá ljósmyndara á öll sýslumannsembætti og það sé ánægjulegt að það verði ljósmyndari í hverju horni.

Formaður Ljósmyndarafélagsins trúir því ekki að ófaglærðir verði látnir taka að sér störf ljósmyndara og bendir á að ljósmyndun sé lögvernduð iðngrein. Ráðuneytið haldi úti námi í greininni og gefi út sveinsbréf. Það sé tvíeggjað að verið sé að taka fram fyrir hendurnar á ljósmyndurum og um leið útskrifa ljósmyndara.

Gunnar spyr hvort það sé virkilega ætlun stjórnvalda að ríkisvæða ljósmyndun. Þetta sé skref aftur á bak og það komi að því að allt fari fram hjá ríkinu og einkageirinn verði óþarfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×