Erlent

Sprengjuárás í Hillah

Um 200 manns hafa fallið í hryðjuverkaárásum í Írak undanfarna daga. Ljóst þykir að uppreisnarmenn ætla að kynda undir ófriðarbálinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárdrög síðar í mánuðinum. Í gærmorgun var bílsprengja sprengd á markaðstorgi í bænum Hillah þar sem saman var kominn múgur og margmenni. Í það minnsta tíu manns létu lífið, þar á meðal tvö börn, og 41 slasaðist. Flest fórnarlambanna voru úr hópi sjía. Afar róstusamt hefur verið í landinu undanfarna daga enda er þjóðaratkvæðagreiðsla í uppsiglingu. Vitað er að sumir uppreisnarhópar vilja spilla fyrir kjörfundinum, til dæmis al-Kaída í Írak. Verstu tilræðin voru framin í bænum Balad í fyrradag en þá biðu 95 manns bana í samstilltum árásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×