Innlent

Fjölveiðiskip aflvana í Smugunni

Þorsteinn ÞH 360 fjölveiðiskip í eigi Hraðfrystistöðvar Þórshafnar varð aflvana þar sem skipið var að síldveiðum í Síldarsmugunni síðastliðið sunnudagskvöld. Ingunn AK er með Þorstein í togi og eru skipin væntanleg til Akureyrar á morgun. Þorsteinn varð aflvana eftir að hafa fengið svo kallaðan leiðara í skrúfuna með þeim afleiðingum að gírinn brotnaði. Nokkur eldur kom upp í vélarrúmi skipsins við óhappið en skipverjar náðu fljótlega að ráða niðurlögum hans. Hörður Már Guðmundsson, skipstjóri á Þorsteini, segir brælu hafa verið í Síldarsmugunni þegar óhappið varð en enginn 24 skipverja hafi verið í hættu. Fjölveiðiskipið Ingunn AK kom Þorsteini til aðstoðar á mánudagsmorguninn en þá hafði Þorstein rekið aflvana um nóttina í slæmu veðri. Skipverjar náðu að koma taug á milli skipanna en hún slitnaði fljótlega. Eftir að skipverjum tókst að festa taugina á ný hefur skipunum miðað vel til lands og eru þau væntanleg til Akureyrar á morgun.  Þorsteinn er með 170 tonn af frystum síldarflökum og verður aflanum landað á Akureyri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×