Erlent

Skelfilegt ástand í New Orleans

Vatnið vex í New Orleans. Borgin er á kafi, þúsundir íbúa eru bjargarlausar í því sem eftir stendur af heimilum þeirra og tugir þúsunda eru í raun flóttamenn, eiga ekki lengur þak yfir höfuðið. Ástandið í New Orleans er skelfilegt þessa stundina, allt á floti. Varnarveggir við Pontchartain-vatn hafa gefið sig og vatnið streymir inn í borgina, sem stendur lægra en yfirborð vatnsins. Áttatíu prósent borgarinnar eru á floti í vatni sem er allt að sex metra djúpt. Óttast er að meirihluti allra bygginga sé meira og minna ónýtur. Fólk hefst við á þökum heimila sinna og bíður björgunar og á meðan það er forgangsatriði er ekki hægt að sinna líkum sem fljóta um. Í flóðavatnið blandast að auki eiturefni frá verksmiðjum og skólp, svo að sérfræðingar segja hálfgerða eiturefnarotþró að myndast í borginni. Það var heldur ekki fögur mynd sem máluð var síðdegis. Kathleen Blanco, ríkisstjóri í Louisiana segir ástandið fara hríðversnandi. Stór skörð séu komin í varnargarða, líklega um þrjátíu metra djúp og það sé hrein martröð að ætla að þétta garðana. Þjóðavarðlið og fleiri hafi hafi reynt að endurbyggja garðana með því kasta sandpokum í þá en það sé eins og pokunum sé kastað í svarthol. Ray Nagin, borgarstjóri í New Orleans segir að það geti liðið allt að 12 til 16 vikur áður en  íbúar geti snúið til baka. Nagin segir ennfremur að lík fljóti um allt, með tilheyrandi sjúkdómahættu. Og svo virðist sem þetta ástand laði ekki endilega fram það besta og göfugasta í borgarbúum, eins og þessar myndir sýna, því margir hafa farið um ránshendi, eldar loga á nokkrum stöðum og fréttamenn tala um stríðsástand.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×