Erlent

Heilabólgufaraldur geisar

41 barn dó í gær í Uttar Pradesh-héraði á Indlandi af völdum heilabólgufaraldurs sem þar geisar. Veikin leggst einkum á börn en síðan hún kom upp í héraðinu í júlílok hafa 308 látist af hennar völdum, þar af þrír fullorðnir. Sjúkdómnum fylgja uppköst og hár hiti og algengt er að fórnarlömbin falli í dá og deyji svo í kjölfarið. Moskítóflugur valda sjúkdómnum en krökkt er af þeim á þessum árstíma þegar monsúnrigningarnar standa yfir. Yfir 1.100 sjúklingar eru nú til meðhöndlunar á sjúkrahúsum héraðsins. "Látnum fjölgar hratt og sjúklingarnir streyma hingað inn," sagði D.P. Misra, embættismaður í Uttar Pradesh í samtali við AP-fréttastofuna. Hægt er að koma í veg fyrir veikina með bólusetningu en Uttar Pradesh-hérað er svo fátækt að engir peningar eru til fyrir bóluefni. Þar búa 180 milljónir manna en fæstir þeirra hafa aðgang að viðunandi læknisþjónustu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×