Erlent

Líkleg valdaskipti í Noregi

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Jens Stoltenberg, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Noregs. Samkvæmt nýrri könnun stefnir í stórsigur vinstri flokkanna í þingkosningunum í Noregi eftir tvær vikur. Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir Norska ríkissjónvarpið og norska Dagblaðið er útlit fyrir að vinstri flokkarniar fái 90 þingsæti af 169 á norska Stórþinginu. Könnunin sýnir að þrátt fyrir að Verkamannaflokkurinn tapi lítillega fylgi frá síðustu könnun ætla langflestir að kjósa flokkinn, sem nýtur nú tæplega 31 prósents fylgis. Norski Framfaraflokkurinn, flokkur Carls I. Hagens, bætir aðeins við sig og nýtur næstmests fylgis samkvæmt könnuninni, en um nítján af hundaði segjast ætla að kjósa hann. Hægri flokkurinn, sem einnig bætir við sig fylgi, er í þriðja sæti með um 15 prósent og Sósíalíski vinstriflokkurinn er með rúmlega 13 prósenta fylgi. Kristilegi þjóðarflokkurinn, flokkur Kjells Magnes Bondeviks forsætisráðherra, er einungis með um átta prósenta fylgi, líkt og Miðflokkurinn, en Kristilegir tapa lítillega fylgi frá síðustu könnun og þeir hafa tapað um þriðjungi af fylgi flokksins frá þingkosningunum í Noregi árið 2001. Vinstri flokkurinn er með minnsta fylgið, samkvæmt könnuninni nú, eða aðeins 3,3 prósent. Þetta þýðir að vinstri flokkarnir eru samanlagt með nægilegt fylgi til að mynda meirihlutaríkisstjórn. Fátt virðist því geta komið í veg fyrir að Jens Stoltenberg, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Noregs og taki við embættinu af Bondevik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×