Erlent

Árásarinnar á Hiroshima minnst

Japanar minntust þess í gær að 60 ár eru liðin frá því að fyrsta kjarnorkusprengjan, sem notuð var í hernaði, sprakk yfir borginni Hiroshima. Klukkan 8.15, þann 6. ágúst árið 1945, varpaði bandaríska herflugvélin Enola Gay sprengjunni á borgina. Hún sprakk um hálfum kílómetra fyrir ofan hana með þeim afleiðingum að 140 þúsund manns létust og borgin varð ein rjúkandi rúst. Alls bjuggu 350 þúsund manns í borginni á þessum tíma. Þremur dögum síðar vörpuðu Bandaríkjamenn annarri kjarnorkusprengju á borgina Nagasaki með þeim afleiðingum að um 80 þúsund manns létust. 15. ágúst árið 1945 gáfust Japanar upp og seinni heimsstyrjöldinni var þar með lokið. Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, ávarpaði um 55 þúsund manns sem tóku þátt í minningarathöfinni í gær. Hann vottaði hinum látnu virðingu sína og sagði Japana ætla að vera leiðandi afl í baráttunni gegn kjarnorkuhernaði. Tadatoshi Akiba, borgarstjóri Hiroshima, var ómyrkur í máli. Hann bað kjarnorkuveldin að eyða vopnum sínum. Í ræðu sinni beindi hann spjótum sínum helst gegn Bandaríkjamönnum og Rússum sem hann sagði vera að stofna mannlegri tilveru í hættu með stefnu sinni í kjarnorkumálum. Gærdagurinn var tilfinningaþrunginn í Hiroshima. Fjöldi friðarsinna hrópaði slagorð gegn kjarnorkuveldunum. Eitt þúsund friðardúfum var sleppt við Atómhvelfinguna svokölluðu, en það er bygging sem lagðist í rúst við sprenginguna og hefur verið varðveitt þannig. Byggingin er á heimsminjaskrá UNESCO. Þá fleyttu tugir þúsunda manna ljóskerjum eftir á sem rennur í gegnum borgina. Ljóskerin eiga að tákna sálir þeirra sem létust í sprengingunni. Þótt talið sé að um 140 þúsund manns hafi látist strax eða nokkrum mánuðum eftir að sprengingin varð er tala fórnarlambanna mun hærri í dag. Japönsk stjórnvöld telja nú að ríflega 240 þúsund manns hafi látist vegna sprengingarinnar. Á hverju ári bætist við þessa tölu því þeir sem látast, til dæmis, af völdum krabbameins sem rekja má til geislavirkninnar sem varð þegar sprengjan sprakk, eru taldir til fórnarlamba árásarinnar. Í dag búa nærri þrjár milljónir manna í Hiroshima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×