Innlent

Framkvæmdastjóri KEA hættur

Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, hefur sagt starfi sínu lausu þar sem stjórn félagsins samþykkti ekki að hann færi í fæðingarorlof. Andri og kona hans eiga von á tvíburum auk þess sem þau eiga fyrir fjögur börn undir níu ára aldri. Andri segir í tilkynningu á vef KEA að hann hafi ekki séð sér annað fært en að fara fram á fæðingarorlof frá störfum sínum hjá KEA. Stjórn félagsins taldi óheppilegt að Andri tæki sér svo langt leyfi og segir hann það því hafa orðið sameiginlega niðurstöðu sína og stjórnarinnar að best væri að hann hætti störfum tafarlaust til að rýma fyrir nýjum manni. Benedikt Sigurðsson, stjórnarformaður KEA, segir ákvörðunina hafa verið tekna í fullri sátt og áréttar að Andri njóti fullra réttinda í fæðingarorlofinu. Hann segir það hins vegar liggja ljóst fyrir að ekki gangi upp að framkvæmdastjóri sé frá störfum í jafnvel meira en ár í fyrirtæki þar sem fáir starfa, en þrír starfsmenn eru á skrifstofu KEA. Benedikt segir stjórn fyrirtækisins þeirrar skoðunar að lög um fæðingarorlof eigi ekki að gilda um stjórnendur á háum launum sem gegni lykilstöðum í sínu fyrirtæki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×