Innlent

Sveitasamfélag í borginni

Búið er í sjötíu og fimm íbúðum og húsum í Norðlingaholti en íbúum fer ört vaxandi. Blaðamaður tók hús á nokkrum þeirra og kannaði aðstæður og viðhorf frumbyggja í þessu nýja samfélagi. Hafdís Engilbertsdóttir flutti í hverfið fyrir tveimur mánuðum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum á unglingsaldri en elsta dóttirin er að koma sér fyrir í næsta húsi fyrir neðan foreldra sína. "Það tekur svolítið á þolrifin að búa hérna ennþá," segir húsfreyjan. "Hér eru háværar vinnuvélar í gangi allan daginn og hrúgur og drasl úti um allt sem fylgja svona nýbyggingum en þá lítur maður bara til náttúrunnar hér í kring og þá tekur maður gleði sína á ný. En ég féll fyrir þessu svæði þegar ég kom hingað fyrst, mér fannst skipulagið flott og ekki skemmir fyrir þetta dásamlega útsýni sem maður getur notið af þessum risastóru svölum," segir húsfreyjan og býður blaðamanni út á svalir en þar er fyrir fríður kvenna- og vinahópur Hafdísar að kanna aðstæður frumbyggjans. Hafdís fær tíðar heimsóknir í nýja hverfið frá sínu fólki en hún segist jafnframt vera orðin málkunnug nágrönnum sínum svo hún gerir ráð fyrir að Norðlingaholtið verði ekki aðeins svefnbær heldur einnig hlýlegt sveitasamfélag í borginni. En henni þykir heldur snemmt að hugsa um fullmótað hverfi í Norðlingaholti því enn er margt við hennar aðstæður sem minnir hana á að hverfið er langt frá því að vera það. "Héðan er frekar langt að sækja alla þjónustu, hér er líka lítið um að vera fyrir þá yngri enn sem komið er og svo fæ ég ekki Fréttablaðið svo dæmi séu tekin," segir húsfreyjan og lítur í átt til Rauðhóla til að taka gleði sína á ný. "Ég fæ þó allaveganna póstinn," segir hún eftir að gleðin er tekin. Í einni af þeim fáu blokkum sem tilbúnar eru í hverfinu býr Erna Björk Svavarsdóttir en hún flutti inn um miðjan júní. Hún segir að börn sín sem eru á grunnskólaaldri kvarti mikið undan því að ekkert sé um að vera í þessu hverfi en hún er vongóð um að líf færist í tuskurnar þegar skólinn byrjar. Hún gerir sér vonir um að hverfið verði fjölskylduvænt þar sem börn geti áhyggjulaust unað við leik þar sem umferð verði ekki þung í hverfinu og svo geta þeir sem eldri eru gengið á göngustígum um fallega náttúruna sem rammar hverfið inn. "Ég held að þetta verði svona sveit í borginni," segir hún og er þegar farin að láta sig dreyma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×