Innlent

Hringferðinni lýkur í dag

Göngugarparnir Bjarki Birgisson og Guðbrandur Einarsson sem lögðu gangandi af stað hringveginn 20. júní síðastliðinn loka hringnum við Rauðavatn klukkan hálf fjögur í dag. Aldrei þessu vant fá þeir félagar svo bílfar niður í miðbæ Reykjavíkur en taka þar fram gönguskóna aftur þegar þeir ganga eftir Fríkirkjuvegi og inn á Ingólfstorg þar sem hringferðinni lýkur formlega klukkan fimm. Fréttablaðið náði tali af Bjarka þar sem hann var að koma að Kjalarnesi. "Ég er genginn upp að hnjám en ég er þó ekki genginn af göflunum," sagði hann móður en kátur. Þetta gönguátak þeirra tvímenninga gengur undir nafninu "Haltur leiðir blindan" en við Kjalarnesið í gær voru um fjörutíu metrar á milli þeirra og því spurði blaðamaður Bjarka, sem haltrar, hvort hann ætti ekki að leiða Guðbrand sem er mjög sjónskertur. "Jú reyndar, við vorum hlið við hlið í upphafi göngu en við verðum líka að fá smá pásu hvor frá öðrum," sagði Bjarki kankvís en sagði samkomulagið með besta móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×