Innlent

Kelduhverfi logaði í eldglæringum

Óvenjumikið þrumuveður gekk yfir Norðurland í gær og fylgdu því miklar eldglæringar og úrhelli á afmörkuðum svæðum. Helgi Viðar Björnsson, verkstjóri hjá Rafmagnsveitum ríkins á Kópaskeri, segir að rafmagn hafi farið af öllum bæjum í Kelduhverfi og Öxarfirði í rúma klukkustund þar sem eldingu laust niður í sveitalínu. Íbúar Kópaskers, Raufarhafnar og Þórshafnar urðu rafmagnslausir í um fimmtán mínútur af völdum eldingar sem sló niður í aðveitustöð á Kópaskeri. Útsendingar beggja rása Útvarpsins duttu út í Kelduhverfi í rúmar þrjár klukkustundir og útsendingar Stöðvar 2 náðust ekki frá klukkan 15 og fram á kvöld. Katrín Eymundsdóttir, oddviti í Kelduneshreppi, segir að Kelduhverfi hafi bókstaflega logað í eldglæringum upp úr klukkan 15 og þrumurnar hafi verið mjög kröftugar. "Skepnur hræddust; hestar hlupu um tún og hundar forðuðu sér í hús. Á tímabili varð mér sjálfri ekki um sel og svo var eflaust einnig um fleiri íbúa Kelduhverfis. Mér er ekki kunnugt um tjón af völdum eldinganna en sumar komu mjög nærri húsum og sjálf heyrði ég hvissið í þeim þegar þær komu niður," segir Katrín. Sjálfvirkt eldingamælikerfi í eigu Breta, sem staðsett er á Íslandi, nam á fjögurra klukkustunda tímabili í gær, frá um klukkan 14 og til klukkan 18, hátt í 70 eldingar; flestar á Norðurlandi en einnig nokkrar á Vestfjörðum. Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur og einn helsti sérfræðingur landsins um eldingar, segir óvanalegt að svo margar eldingar mælist á Íslandi á jafn stuttum tíma og eins sé fremur fátítt að eldingar valdi rafmagnstruflunum á Norðurlandi. "Það er hins vegar ekki óalgengt að eldingar valdi rafmagnstruflunum á Suður- og Suðausturlandi," segir Þórður. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að rekja megi eldingarnar til óstöðugs lofts þar sem frekar kalt loft var í háloftunum á sama tíma og loft nær jörðu var mun hlýrra. "Loftið byltist um og háreistir skúraklakkar mynduðust eins og oft gerist á meginlandi Evrópu að sumarlagi," segir Einar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×