Innlent

Misskilningur segir Árni

Hreimur Heimisson, söngvari Lands og sona, sakar Árna Johnsen um að hafa slegið sig í andlitið á þjóðhátíðarsviðinu í Vestmannaeyjum á sunnudag. Árni Johnsen segir að það sé misskilningur. Atvikið varð strax eftir brekkusönginn, þegar verið var að afkynna þjóðhátíðarlagið 2001 sem hópur söngvara söng á sviðinu. Hreimur segir að strax að söngnum loknum hafi Árni komið upp á sviðið og verið heitt í hamsi og segir hann jafnframt hafa verið fúla út í sig og hina söngvarana og rekið þá af sviðinu. Spurður um það hvort Árni hafi slegið sig segir Hreimur að hendin á Árna hafi komið beint í smettið á sér. Hann sagði kinnhestinn hafa verið öflugan. Hann sagði Árna hafa látið þá vita það að þarna réði hann og að þeir hefðu misboðið hljóðkerfinu. Spurður um hvort hann ætlaði að kæra þá sagðist Hreimur vera að hugsa málið og hann benti jafnframt á að Árni Johnsen væri á skilorði. Árni Johnsen segir um misskilning að ræða; hann hafi ætlað að fjarlægja hljóðnema þegar hann hafi rekist í Hreim á sviðinu. Undir þetta taka hvorki Hreimur né aðrir sjónarvottar sem fréttastofan hefur talað við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×