Innlent

Stjórnlaus í stórsjó

Þyrla Landhelgisgæslunar sótti í fyrrinótt fjóra áhafnarmenn á skútunni Svala ISL 1840 sem bilað hafði um það bil hundrað sjómílur suðaustur af landinu. Bóma sem heldur stórsegli hafði brotnað og sigldi skútan með vélarafli en var orðin olíulítil þegar áhöfn afréð að kalla á aðstoð Landhelgisgæslunar klukkan tíu í fyrrinótt. Eftir að búið var að hífa fjórmenningana upp í þyrlu var skútan skilin eftir á reki hundrað sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði. Tryggingarfélagið Sjóvá-Almennar, sem greiðir björgunarkostnað, samdi síðdegis í gær við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um að hún sendi björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað til að leita skútunnar og lagði skipið af stað síðdegis í gær. Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir menn nokkuð bjartsýna um að finna hana fljótlega en þó mætti búast við því að upp undir tvo sólarhringa taki að koma henni í höfn. Þeir eigendur bátsins sem Fréttablaðið náði tali af eiga ekki von á því að skútan verði fyrir frekara tjóni þar sem hún rekur í norðaustur með rekakkeri í eftirdragi þar sem vel var frá henni gengið. "Vissulega verður maður óöruggur þegar tækin sem maður er með virka ekki eins og þau eiga að gera og þú ert staddur í haugasjó úti á reginhafi," segir Jón Víkingur Hálfdánarson, sem var um borð í skútunni og er einn af eigendum hennar. Engum varð meint af sjóvolkinu en talsvert brugðið við að sögn Jóns Víkings þar sem fjórmenningarnir eru ekki vanir sæfarar. Hann segir að veðurupplýsingar sem þau hafi fengið frá Færeyjum hafi verið óábyggilegar og það gerði þeim erfitt fyrir að meta aðstæður þegar olían var af skornum skammti. Svala lagði í Færeyjaför sína 22. júlí síðastliðinn en þá með aðra áhöfn. Byrjaði sú ferð brösulega þar sem gír skútunnar bilaði og ekki fékkst viðgerð í Vestmannaeyjum eins og vonast var eftir. Var þá ákveðið að sigla til Færeyja þrátt fyrir bilunina og tókst sú ferð vel og var gert við gírinn þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×